Ég er með lítið/meðalstórt fyrirtæki, til hvers þarf ég að líta hvað varðar nýja persónuverndarlöggjöf?
Öll vinnsla persónuupplýsinga þarf að styðjast við einhverja heimild, svo
sem samþykki eða lagaheimild. Ef um viðkvæmar persónuupplýsingar er að ræða í
skilningi laganna þarf jafnframt að uppfylla sérstök viðbótarskilyrði. Viðkvæmar
persónuupplýsingar samkvæmt lögunum eru til að mynda upplýsingar um heilsufar, stéttarfélagsaðild,
kynþátt, þjóðernislegan uppruna, stjórnmálaskoðanir og trúarbrögð.
Þá þarf við meðferð
persónuupplýsinga ávallt að gæta að meginreglum laganna um gæði gagna og
vinnslu. Þannig skal þess meðal annars gætt að þær séu fengnar í yfirlýstum,
skýrum, málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum
tilgangi. Auk þess þarf varðveisla þeirra og öryggi að vera í samræmi við tilgang
vinnslu, eðli og umfang þeirra upplýsinga sem unnið er með hverju sinni.
Hvað eru persónuupplýsingar?
Persónuupplýsingar eru allar upplýsingar um persónugreindan eða persónugreinanlegan einstakling. Einstaklingur telst persónugreinanlegur ef unnt er að persónugreina hann, beint eða óbeint, svo sem með tilvísun í auðkenni eins og nafn, kennitölu, staðsetningargögn, netauðkenni eða annað sambærilegt.
Er fyrirtækið mitt ábyrgðaraðili eða vinnsluaðili?
Í persónuverndarlögum er greint á milli svokallaðra ábyrgðaraðila og vinnsluaðila. Ábyrgðaraðili er sá sem ákveður tilgang og aðferðir við vinnslu persónuupplýsinga, en vinnsluaðili er sá sem vinnur með persónuupplýsingar á vegum ábyrgðaraðila. Vinnsluaðili getur því til dæmis verið fyrirtæki sem tekur að sér að vinna með persónuupplýsingar fyrir einhvern annan.
Á báðum aðilum hvíla tilteknar skyldur samkvæmt persónuverndarlögum og þegar notast er við vinnsluaðila þarf að liggja fyrir vinnslusamningur sem inniheldur meðal annars fyrirmæli ábyrgðaraðila til vinnsluaðila.
Hvað er vinnsluskrá og þarf ég að halda slíka skrá?
Samkvæmt persónuverndarlögum ber flestum fyrirtækjum og stofnunum að
halda vinnsluskrá, þ.e. skrá yfir þá vinnslu persónuupplýsinga sem fer fram og
hvernig að henni er staðið. Öll fyrirtæki sem vinna með persónuupplýsingar
reglulega, til dæmis í tengslum við launavinnslu, þurfa því að halda vinnsluskrá,
óháð starfsmannafjölda. Með því að útbúa vinnsluskrá fæst almennt góð yfirsýn
yfir þá vinnslu persónuupplýsinga sem á sér stað á hverjum vinnustað og getur
hún því verið heppilegt fyrsta skref í því að laga starfsemina að nýjum
persónuverndarlögum.
Hvernig á að upplýsa hinn skráða um fyrirkomulag vinnslu?
Ábyrgðaraðila ber skylda til að fræða þá einstaklinga sem
hann vinnur með persónuupplýsingar um. Þá fræðsluskyldu má meðal annars
uppfylla með persónuverndarstefnu, þ.e. stefnu um meðhöndlun persónuupplýsinga.
Þörf á að útbúa sérstaka persónuverndarstefnu fer eftir atvikum hverju sinni, svo
sem efni og umfangi þeirrar vinnslu persónuupplýsinga sem fer fram hjá
viðkomandi ábyrgðaraðila. Veita þarf upplýsingar um hvers vegna unnið er með upplýsingarnar,
hvaða tegundir upplýsinga eru notaðar, hvort miðla á upplýsingunum til þriðja
aðila, hvort flytja á upplýsingarnar úr landi, réttindi hins skráða, hvaðan
upplýsingarnar koma, hvernig hafa má samband við ábyrgðaraðila og rétt hins
skráða til að kvarta til Persónuverndar, svo að dæmi séu nefnd.
Sjónarmiðin að baki þessu
eru þau að hvers kyns vinnsla persónuupplýsinga á að vera lögmæt og sanngjörn.
Einstaklingum ætti því að vera það ljóst þegar persónuupplýsingum um þá er
safnað, þær notaðar, skoðaðar eða unnar á annan hátt og að hvaða marki þær eru
eða munu verða unnar. Þá krefst meginregla laganna um gagnsæi þess að hvers
kyns upplýsingar og samskipti, sem tengjast vinnslu persónuupplýsinga, séu
auðveldlega aðgengileg og á skýru og einföldu máli.
Þarf mitt fyrirtæki eða stofnun að ráða persónuverndarfulltrúa?
Ábyrgðaraðili og vinnsluaðili þurfa að tilnefna persónuverndarfulltrúa í sérhverju tilviki þar sem:
- vinnsla er í höndum stjórnvalds;
- meginstarfsemi ábyrgðaraðila eða vinnsluaðila felst í vinnsluaðgerðum sem krefjast, sakir eðlis síns, umfangs eða tilgangs, umfangsmikils, reglubundins og kerfisbundins eftirlits með skráðum einstaklingum;
- meginstarfsemi ábyrgðaraðila eða vinnsluaðila felst í umfangsmikilli vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga eða upplýsinga sem varða sakfellingar í refsimálum og refsiverð brot.
Meta þarf hvort eitthvert framangreindra skilyrða sé fyrir hendi og skoða í hverju tilfelli fyrir sig hvort nauðsynlegt sé að tilnefna persónuverndarfulltrúa.
Mat á áhrifum á persónuvernd
Ef
tilteknar vinnsluaðferðir skapa mikla áhættu fyrir réttindi og frelsi einstaklinga
verður ábyrgðaraðili að framkvæma mat á áhrifum á persónuvernd. Í slíku mati
þarf að gera grein fyrir áhættunni og mögulegum afleiðingum hennar. Ef niðurstaða
matsins er sú að áhættan sé mikil og að ábyrgðaraðila sjálfum sé ekki fært að
draga úr henni verður að leita fyrirframsamráðs við Persónuvernd vegna
vinnslunnar.
Brot gegn lögum um persónuvernd varða sektum
Fyrir vægari brot gegn persónuverndarlögunum geta sektir numið frá 100 þúsund krónum til 1,2 milljarða króna, eða allt að 2% af árlegri heildarveltu fyrirtækis á heimsvísu á næstliðnu fjárhagsári, hvort heldur er hærra. Fyrir alvarlegri brot geta sektir numið frá 100 þúsund krónum til 2,4 milljarða króna, eða allt að 4% af árlegri heildarveltu fyrirtækis á heimsvísu á næstliðnu fjárhagsári, hvort heldur er hærra.
Meðal
þess sem haft getur áhrif á fjárhæð sektar er alvarleiki brots, hvort leitast
hafi verið við að draga úr afleiðingum þess og hvort um sé að ræða til dæmis
lítið fyrirtæki eða alþjóðlegt stórfyrirtæki.
Hvar á mitt fyrirtæki/stofnun að byrja?
1. Kynnið ykkur nýju reglurnar vandlega
Lög og reglur um persónuvernd má finna á vefsíðu Persónuverndar. Þar er einnig
að finna margvíslegar upplýsingar og leiðbeiningar sem uppfærðar eru reglulega.
2. Hafið yfirsýn yfir hvaða persónuupplýsingar unnið er með
Öll
fyrirtæki, stofnanir og aðrir sem vinna með persónuupplýsingar verða að hafa
yfirsýn yfir upplýsingarnar sem unnið er með, hvaðan þær koma og á hvaða
lagalega grundvelli meðhöndlun þeirra er byggð. Verið viss um að hafa slíka
yfirsýn. Hér er vinnsluskrá mikilvægt verkfæri. Sniðmát fyrir vinnsluskrá má
finna á vefsíðu Persónuverndar.
3. Staðfestið að allir verkferlar uppfylli kröfur laganna
Séu
þegar fyrir hendi góðar verklagsreglur um innra eftirlit sem þjóna tilgangi
sínum og sem starfsmenn þekkja er auðveldara að fá yfirsýn yfir það sem þarf að
laga. Yfirfarið gildandi verklagsreglur um vinnslu persónuupplýsinga.
4. Útbúið og innleiðið persónuverndarstefnu – uppfyllið fræðsluskyldu
Á
ábyrgðaraðila hvílir skylda til að fræða hinn skráða um vinnslu persónuupplýsinga
um hann. Þá fræðsluskyldu má m.a. uppfylla með persónuverndarstefnu, þ.e.
stefnu um meðhöndlun persónuupplýsinga.
5. Hugið að öryggi gagna
Hagið varðveislu og öryggi persónuupplýsinga í samræmi við
tilgang vinnslu, eðli og umfang upplýsinganna. Viðkvæmar persónuupplýsingar
krefjast meiri verndar en almennar persónuupplýsingar.
6. Fylgið reglum um eyðingu gagna - Rétturinn til að gleymast
Fyrirtæki skulu eyða persónuupplýsingum þegar þeirra er ekki
lengur þörf, hvort sem hinn skráði fer fram á það eður ei. Athugið að
stjórnvöldum er almennt óheimilt að eyða gögnum.
7. Tilkynnið Persónuvernd um öryggisbresti
Tilkynna þarf Persónuvernd um öryggisbrest innan 72
klukkustunda frá því að ábyrgðaraðili verður hans var. Eins þarf að tilkynna
hinum skráða um öryggisbrestinn ef líklegt er að hann leiði af sér mikla áhættu
fyrir réttindi og frelsi hins skráða.
8. Athugið hvar persónuupplýsingarnar eru geymdar
Eru gögn
geymd í tölvuskýi? Gangið úr skugga um hvort persónuupplýsingar eru geymdar
innan eða utan Evrópska efnahagssvæðisins. Óheimilt er að flytja persónuupplýsingar
út fyrir EES-svæðið nema að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
9. Gætið að reglum um innbyggða og sjálfgefna persónuvernd
Er upplýsingakerfið ykkar hannað á þann hátt að það standist
kröfur um innbyggða og sjálfgefna persónuvernd? Getur fyrirtækið/stofnunin
svarað fyrirspurnum frá almenningi um vinnslu persónuupplýsinga á innan við
mánuði?
Nýja löggjöfin krefst þess að hugbúnaður og verkferlar séu
útfærðir með sérstaka áherslu á persónuvernd og á þann hátt að hún sé innbyggð
í viðkomandi lausn. Hönnun hugbúnaðar þarf því að taka mið af því að öryggi
persónuupplýsinganna sé tryggt, meðal annars ef áföll verða í rekstri kerfa. Þá
þarf að hanna lausnir með það í huga að einstaklingar geti nýtt sér réttindi
sín samkvæmt persónuverndarlögunum, svo sem aðgangsrétt og rétt til að flytja
eigin gögn.
10. Nýtið tækifærin!
Rétt meðferð persónuupplýsinga er til þess fallin að auka traust neytenda og annarra í garð fyrirtækja og stofnana. Fyrirtæki sem axla ábyrgð og leggja metnað sinn í að tryggja öryggi og vernd persónuupplýsinga geta þannig bætt samkeppnisstöðu sína og skapað sér viðskiptalegt forskot.
Hér má nálgast bæklinginn á PDF-formi.