Vegna fréttatilkynningar Neytendasamtakanna og ASÍ um starfsleyfisskilmála Creditinfo
Að gefnu tilefni vill Persónuvernd taka eftirfarandi fram vegna fréttatilkynningar sem Neytendasamtökin og ASÍ birtu í dag:
Samkvæmt
gildandi löggjöf hefur Persónuvernd það hlutverk að veita leyfi til starfsemi
fjárhagsupplýsingastofa. Á grundvelli eldri persónuverndarlöggjafar var sett
reglugerð um slíka starfsemi sem enn er í gildi, en reglugerð með stoð í hinni
nýju löggjöf hefur ekki verið sett. Í ljósi þeirrar tafar sem orðið hefur á
setningu reglugerðarinnar hefur gerð nýrra skilmála seinkað. Þar sem ófyrirséð
er hvenær reglugerð verður sett telur Persónuvernd ekki ástæðu til að bíða
hennar lengur. Þess er því að vænta að skilmálar verði gefnir út að nýju og
verða þeir settir í umsagnarferli eins og Neytendasamtökunum og ASÍ hefur verið
greint frá.
Hvað það varðar að um ræði viðkvæmar persónuupplýsingar skal tekið fram að fjárhagsupplýsingar falla ekki undir skilgreiningu persónuverndarlöggjafar á slíkum upplýsingum. Hins vegar er jafnframt ljóst að gera verður sérstakar ráðstafanir við vinnslu persónuupplýsinga hjá fjárhagsupplýsingastofum og fella hana undir ströng skilyrði.
Einnig skal tekið fram, hvað varðar hugsanlegan hag fjárhagsupplýsingastofu af brotum áskrifenda, að hækkuðu áskriftargjaldi vegna brota er ætlað að fela í sér viðurlög gagnvart þeim sem ekki fara að skilmálum, en jafnframt verður ítrekun í annað sinn til þess að segja verður upp samningi við viðkomandi áskrifanda.
Þá skal tekið fram að ekki er á því byggt í leyfisskilmálum að hinn skráði þurfi að færa sönnur á skuldleysi sitt og verður það séð af upptalningu skilmálanna á því hvenær skráning er heimil, sem og því að vinnsla upplýsinga um umdeildar skuldir er óheimil þar til þær hafa verið staðfestar með opinberri réttargerð.