Norrænar persónuverndarstofnanir halda áfram nánu samstarfi
Forstjóri Persónuverndar, ásamt forstjórum systurstofnana sinna á Norðurlöndunum, undirrituðu í gær yfirlýsingu um aukna samvinnu á sviði persónuverndarmála á árlegum samstarfsfundi stofnananna. Tilgangur yfirlýsingarinnar er að styrkja enn frekar norræna samvinnu, meðal annars með því að vinna saman að stefnumótun á sviði eftirlitsaðgerða og auka upplýsingaskipti á milli stofnananna.
Norrænu persónuverndarstofnanirnar hafa lengi átt með sér
samvinnu, en með tilkomu persónuverndarreglugerðarinnar er slík samvinna
mikilvægari en nokkru sinni fyrr. Á fundi ársins fóru fram hnitmiðaðar umræður
um sameiginleg áform um eftirlit og ítarlegri ESB-samvinnu og upplýsingaskipti.
Yfirlýsingin var undirrituð sem fyrr segir á árlegum fundi norrænna
persónuverndarstofnana, sem í ár var skipulagður af sænsku
persónuverndarstofnunni og fór fram í Stokkhólmi.
Í yfirlýsingunni eru settar fram ýmsar aðgerðir til að ná markmiði hennar:
- Norrænu stofnanirnar skuldbinda sig til að vinna saman meðal annars hvað aðgerðir og eftirlit varðar, að skapa tengslanet til að skiptast á upplýsingum um samvinnuna innan EES og að veita persónuverndarfulltrúum stuðning og ráðgjöf.
- Samvinna stofnananna mun sem fyrr byggja á norrænum gildum og hefðum sem fela í sér virðingu fyrir grundvallarréttindum og frelsi einstaklinga.
Stokkhólmsyfirlýsingin á pdf-sniði.
Forstjórar persónuverndarstofnananna á Norðurlöndunum.