Fundir EDPB í apríl og maí
14.06.2021
Vegna Covid-19 faraldursins hafa fundir Evrópska persónuverndarráðsins (EDPB) farið fram í gegnum fjarfundabúnað frá því í apríl 2020. Hér að neðan má finna yfirlit yfir fundi ráðsins í apríl og maí.
48. fundur ráðsins var haldinn 13. apríl 2021. Helstu atriði á dagskrá voru:
· Álit á drögum framkvæmdastjórnar ESB að ákvörðun um að Bretland teljst öruggt þriðja ríki (e. adequacy decision). Niðurstaða ráðsins er sú að í flestum atriðum sé bresk persónuverndarlöggjöf í góðu samræmi við evrópsku persónuverndarlöggjöfina. Ráðið bendir þó á að æskilegt sé að framkvæmdastjórn ESB taki nokkur atriði til nánari skoðunar og mats, m.a. hvað varðar undantekningu frá réttindum einstaklinga hvað varðar innflytjendur (e. the immigrant exception).
· Leiðbeiningar um beitingu a-liðar, 1. mgr. 65. gr. persónuverndarreglugerðarinnar.
· Leiðbeiningar um notkun persónuupplýsinga til að ná til tiltekinna hópa á samfélagsmiðlum (e. targeting of social media users)
· Yfirlýsing varðandi alþjóðasamninga sem fjalla um flutning persónuupplýsinga úr landi.
Fréttatilkynning EDPB v. 48. fundar.
49. fundur ráðsins var haldinn 19. maí 2021. Helstu atriði á dagskrá voru:
· Álit að drögum að hátternisreglum (e. codes of conduct) fyrir skýjamiðstöð Evrópu (CISPE). Niðurstaða ráðsins var sú að er sú að bæði drögin séu í samræmi við 40. og 41. gr. persónuverndarreglugerðarinnar.
· Yfirlýsing vegna löggjafar um gagnastjórnun (e. Data Governance Act)
· Tilmæli vegna lögmæti varðveislu kreditkortaupplýsinga í þeim tilgangi einum að auðvelda framtíðarviðskipti á netinu.