Fréttir
Fundir EDPB í apríl og maí
Vegna Covid-19 faraldursins hafa fundir Evrópska persónuverndarráðsins farið fram í gegnum fjarfundarbúnað í apríl og maí. Í stað mánaðarlegra funda skipti ráðið yfir í vikulega fjarfundi. Alls voru á þessum tíma haldnir 11 fjarfundir. Áætlað er að ráðið haldi fjarfundi út júlí í það minnsta.
Að venju voru fjölmörg atriði á dagskrá ráðsins, en þau helstu voru:
- Leiðbeiningar vegna vísindarannsókna á heilbrigðissviði í tengslum við Covid-19. Leiðbeiningarnar voru samþykktar á fundi ráðsins þann 21. apríl 2020. Unnið er að íslenskri þýðingu á leiðbeiningunum.
- Leiðbeiningar vegna smitrakningarforrita í tengslum við Covid-19. Leiðbeiningarnar voru samþykktar á fundi ráðsins þann 21. apríl 2020.
- Beiðni framkvæmdastjórnarinnar um álit EDPB á drögum að leiðbeiningum um þróun smáforrita til að takast á við Covid-19 faraldurinn. EDPB samþykkti bréf til framkvæmdastjórnarinnar þann 14. apríl 2020.
- Uppfærsla á leiðbeiningum um samþykki. Leiðbeiningarnar voru samþykktar á fundi ráðsins þann 4. maí. Breytingarnar fela í sér að í leiðbeiningunum er nú tekið fram að það að fletta áfram á vefsíðu (e. scrolling) feli ekki í sér samþykki fyrir vefkökum og að ekki sé hægt að setja sem skilyrði fyrir áframhaldandi skoðun á vefsíðu (e. cookie wall) að einstaklingur samþykki vefkökur.