19 frumkvæðisathuganir og 4 úttektir í vinnslu hjá Persónuvernd
Persónuvernd sinnir eftirlitshlutverki sínu m.a. með því að athuga mál að eigin frumkvæði. Það gerir hún með annars vegar frumkvæðisathugunum og hins vegar úttektum. Algengast er að frumkvæðisathuganir hefjist í kjölfar ábendinga sem berast Persónuvernd og lúta þær að nánar tilgreindri vinnslu persónuupplýsinga, oft í tengslum við tiltekin atvik. Úttektir lúta að almennri framkvæmd, t.d. að almennum öryggismálum eða verklagi. Persónuvernd ákveður að fara í úttektir á grundvelli eigin mats eða í kjölfar ábendinga eða tilkynninga um öryggisbrest.
Það að frumkvæðisathugun eða úttekt sé til meðferðar hjá Persónuvernd felur ekki í sér að tekin hafi verið afstaða til lögmætis vinnslu persónuupplýsinga heldur er það gert í ákvörðunum um lok málanna.
Nú eru 19 frumkvæðismál í vinnslu hjá Persónuvernd. Málin varða margvíslega vinnslu persónuupplýsinga, m.a. vinnslu persónuupplýsinga skólabarna, heilsufars- og fjárhagsupplýsinga. Málin eru misumfangsmikil og mislangt á veg komin en vonir standa til að þeim verði flestum lokið fyrir árslok 2021.
Málin lúta að eftirfarandi vinnslu:
- Upplýsingaöflun í smáforriti Ferðagjafar stjórnvalda
- Notkun Seesaw forritsins í grunnskólum Reykjavíkur
- Aðgangur að persónuupplýsingum í Innu, upplýsingakerfi framhaldsskólanna
- Öryggi persónuupplýsinga hjá barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar
- Flutningur leghálssýna frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins til Danmerkur
- Vinnsla persónuupplýsinga hjá þeim hluta starfsemi sýkla- og veirufræðideildar Landspítala sem fluttur var á starfsstöð erfðarannsóknafyrirtækis
- Aðkoma embættis landlæknis að skimun erfðarannsóknafyrirtækis fyrir SARS-CoV-2 veirunni og mótefni við henni í einstaklingum á Íslandi og við landamæri
- Blóðsýnataka úr COVID-19-sjúklingum á Landspítala og öflun samþykkis þeirra í þágu vísindarannsóknarinnar Faraldsfræði SARS-CoV-2 veirunnar og áhrif erfða og undirliggjandi sjúkdóma á COVID-19 sjúkdóminn sem hún veldur
- Rafræn vöktun á íþróttaleikvangi
- Birting ljósmynda af börnum á vef nýsköpunarfyrirtækis
- Vinnsla persónuupplýsinga barna í smáforriti og vefkerfi nýsköpunarfyrirtækis
- Vinnsla persónuupplýsinga barna í vefkerfi nýsköpunarfyrirtækis
- Birting persónuupplýsinga í dómum á Netinu
- Birting persónuupplýsinga í tveimur dómum Héraðsdóms Reykjavíkur
- Staða persónuverndarfulltrúa Reykjavíkurborgar við breytingu á skipulagi
- Válisti á vefsíðu Skattsins
- Fræðsla lánshæfismatsfyrirtækis vegna vinnslu fjárhagsupplýsinga
- Áhrif uppflettinga í vanskilaskrá lánshæfismatsfyrirtækis á niðurstöður skýrslna um lánshæfi
- Meðferð netfangalista hjá veitingafyrirtæki
Birtingin er liður í að auka gagnsæi í daglegum störfum Persónuverndar sem eftirlitsaðila. Stjórnvöld skulu veita almenningi með reglubundnum hætti upplýsingar um starfsemi sína, svo sem með rafrænni útgáfu skýrslna, samantektum um mikilvæg verkefni eða útgáfu annarra gagna, og vinna markvisst að því að gera skrár yfir mál, lista yfir málsgögn og gögnin sjálf aðgengileg með rafrænum hætti, sbr. 13. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.