16. alþjóðlegi persónuverndardagurinn - 28. janúar
Persónuverndardagurinn er haldinn hátíðlegur nú í 16. skipti.
Af því tilefni er ýmislegt um að vera og ber þar einna helst að nefna að Persónuvernd, í samstarfi við Embætti landlæknis og Stafrænt Ísland, hyggst setja á fót sk. sandkassa fyrir aðila sem vilja þróa gervigreindarlausnir í heilbrigðisþjónustu á ábyrgan hátt og í samræmi við persónuverndarlög. Opnað verður fyrir umsóknir 28. febrúar en nánari umfjöllun um verkefnið má finna hér neðar.
Hér má sjá kynningarmyndband um samninginn.
Sandkassinn – gervigreind í heilbrigðisþjónustu
Í tilefni af deginum ákvað Persónuvernd, í samstarfi við Embætti landlæknis og Stafrænt Ísland að kynna fyrirhugaðan sandkassa fyrir fyrirtæki sem hafa hug á að þróa lausnir byggðar á gervigreind til að nota í heilbrigðisþjónustu. Verkefninu er ætlað að aðstoða fyrirtæki við að hanna lausnir með persónuverndarsjónarmið að leiðarljósi og munu Persónuvernd og samstarfsaðilar hennar vera í þéttu samtali við þá aðila sem verða valdir til þátttöku í kjölfar umsóknarferlis.Nánari upplýsingar um sandkassann.
Nýtt rafrænt kvörtunareyðublað á Ísland.is
Á næstu dögum stefnir Persónuvernd á að taka í notkun nýtt rafrænt kvörtunareyðublað, þar sem þeir sem telja á sér brotið við vinnslu persónuupplýsinga munu geta sent stofnuninni kvörtun rafrænt í gegnum Ísland.is. Með því að taka eyðublaðið í notkun vonast Persónuvernd til að auðvelda fólki að setja kvörtun sína til stofnunarinnar fram á skýran og hnitmiðaðan hátt. Í eyðublaðinu er jafnframt að finna leiðbeiningar um helstu málaflokka sem Persónuvernd getur ekki fjallað um. Standa vonir til þess að með tilkomu eyðublaðsins fækki þannig innkomnum kvörtunum til Persónuverndar. Er það til þess fallið að draga að einhverju marki úr því álagi sem einkennt hefur starfsemi hennar síðastliðin ár og stytta málsmeðferðartíma þeirra kvartana sem teknar eru til efnislegrar meðferðar.Eyðublaðið er fyrsta skref Persónuverndar í átt að aukinni rafrænni þjónustu stofnunarinnar. Búast má við að á næstu misserum verði fleiri rafræn eyðublöð tekin í notkun.
Fjölmiðlaumfjöllun Persónuverndar í tilefni af alþjóðlegum persónuverndardegi
- Viðtal við Helgu Þórisdóttur, forstjóra, í Morgunvaktinni á Rás 1, 26. janúar sl.
- Viðtal í Fréttablaðinu við Helgu Þórisdóttur, forstjóra.
Stafræna spjallið á vegum Stafræns Íslands.
- Stafræna spjallið á vegum Stafræns Íslands Um er að ræða fyrsta þátt Stafræna spjallsins og er hann alfarið helgaður persónuverndarmálefnum.
- Tæknivarp Kjarnans. Fjallað verður um um persónuverndarmálefni vítt og breitt í tilefni af alþjóðlega persónuverndardeginum.
- Viðtal við Vigdísi Evu Líndal, sviðsstjóra, í aukablaði Fréttablaðsins um rafrænt öryggi.