Umsagnir um breytingar á lögreglulögum og reglugerð um bakgrunnsathuganir
Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögreglulögum
Persónuvernd vísar til tölvubréfs allsherjar- og menntamálanefndar
Alþingis frá 15. október 2012 þar sem óskað er umsagnar stofnunarinnar
um frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum nr. 90/1996 (þskj.
174, 173. mál á 141. löggjafarþingi). Rætt var um frumvarpið á fundi
stjórnar Persónuverndar í dag og ákveðið að gera eftirfarandi
athugasemdir:
1.
Í 2. gr. frumvarpsins er m.a. lagt til að við 2. mgr. 5. gr. laganna
bætist nýr stafliður þar sem mælt verði fyrir um heimild
ríkislögreglustjóra til öflunar upplýsinga úr málaskrá lögreglu við
framkvæmd lögboðinna bakgrunnsathugana. Af þessu tilefni vekur
Persónuvernd athygli á að upplýsingar í málaskrá lögreglu fela ekki í
sér opinbera staðfestingu á því að menn hafi framið tiltekin brot. Þegar
unnið er með persónuupplýsingar
gildir sú meginregla að þær skuli vera áreiðanlegar, sbr. d-lið 1. mgr.
6. gr. persónuverndartilskipunarinnar nr. 95/46/EB, sbr. 4. tölul. 1.
mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð
persónuupplýsinga. Þegar litið er til þessa og viðkvæms eðlis upplýsinga
í málaskrá lögreglu ber að gjalda varhug við því að þær séu notaðar til
annars en hefðbundinna lögreglustarfa. Þegar litið er til grunnreglu
71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um
friðhelgi einkalífs verður notkun þeirra í tengslum við umræddar
bakgrunnsathuganir aðeins talin réttlætanleg þegar mjög ríkar ástæður
krefjast slíks.
Með umræddu ákvæði 2. gr. frumvarpsins gæfi löggjafinn sér hins vegar
fyrirfram að í hvert sinn sem ástæða væri til setningar ákvæða um
bakgrunnsathugun væri jafnframt tilefni til notkunar
málaskrárupplýsinga. Persónuvernd telur ekki unnt að taka slíka afstöðu
og leggur þess í stað til að metið sé í hvert sinn, sem ákvæði eru sett í
lög um bakgrunnsathugun, hvort þörf sé á málaskrárupplýsingum við
framkvæmd athugunarinnar. Í samræmi við það leggur Persónuvernd til að
orðin „úr skrám lögreglu og“ í tillögu að nýjum staflið í 2. mgr. 5. gr.
lögreglulaga falli brott.
2.
Í tillögu 7. gr. frumvarpsins að 4. mgr. 28. gr. lögreglulaga er einnig
fjallað um öflun málaskrárupplýsinga, þ.e. vegna ráðningar lögreglumanna
og reglubundins mats á því trausti sem bera megi til þeirra. Í ljósi
eðlis lögreglustarfsins, þ. á m. ýmissa valdheimilda sem lögreglumenn
hafa, telur Persónuvernd öflun umræddra upplýsinga geta komið til álita
við framangreindar aðstæður. Hins vegar leggur stofnunin áherslu að gætt
sé meðalhófs, m.a. í tengslum við það hvaða upplýsinga sé aflað og
hversu langt aftur í tímann, sem og að umsækjendum og starfsmönnum sé
greint frá því fyrirfram að þeim verði flett upp. Þá er mikilvægt að
mönnum sé veitt færi á skýringum við skráningu færslna í málaskrá. Mæla
mætti nánar fyrir um það í reglugerð og leggur því Persónuvernd til að
eftirfarandi málslið verði bætt aftast við tillögu 7. gr. frumvarpsins
að 4. mgr. 28. gr.: „Um öflun málaskrárupplýsinga, þ. á m. umfang
upplýsingaöflunarinnar, fræðslu til umsækjenda og starfsmanna í
aðdraganda uppflettingar og andmælarétt þeirra, skal nánar mælt fyrir í
reglugerð.“
Einnig er fjallað um öflun málaskrárupplýsinga í tillögu c-liðar 10.
gr. frumvarpsins að nýjum málslið sem bætt yrði við 5. mgr. 38. gr.
lögreglulaga. Með hinum nýja málslið yrði veitt heimild til öflunar
upplýsinga úr málaskrá um þá sem sækja um skólavist í Lögregluskólanum. Í
ljósi þeirra sjónarmiða sem rakin hafa verið varðandi lögreglumenn eru
ekki gerðar athugasemdir við það. Hins vegar telur Persónuvernd að gæta
þurfi meðalhófs og andmælaréttar þegar umræddir námsumsækjendur eiga í
hlut með sama hætti og þegar um ræðir lögreglumenn og umsækjendur um
störf þeirra. Persónuvernd leggur því til að við umrædda tillögu að
nýjum málslið 5. mgr. 38. gr. sé bætt sömu viðbót og stofnunin leggur
til varðandi tillögu að 4. mgr. 28. gr.
3.
Í 8. gr. frumvarpsins er lögð til ný 28. gr. a. Verði það ákvæði
lögfest verður heimilt að afla upplýsinga úr málaskrá lögreglu um alla
þá sem gegna þar störfum eða sækja um starf. Í þessu sambandi vekur
Persónuvernd athygli á því að störf hjá lögreglu geta verið af ýmsum
toga og sum þess eðlis að ekki sé þörf á slíkri upplýsingaöflun sem hér
um ræðir, s.s. þegar um ræðir störf í mötuneyti, við ræstingar eða ýmsa
stoðþjónustu. Ákvæðið tekur hins vegar ekki tillit til þessa og leggur
Persónuvernd til að það falli brott eða verði að öðrum kosti breytt
verulega þannig að það taki aðeins til þeirra tilteknu starfsmanna sem
sérstök þörf verður talin á að upplýsinga sé aflað um úr málaskrá þó svo
að þeir fari ekki með lögregluvald. Við brottfall ákvæðisins væri ekki
lengur fjallað um öflun upplýsinga úr sakaskrá vegna umræddra starfa, en
vakin er athygli á að um slíka upplýsingaöflun giltu þá sömu sjónarmið
og alla jafna, þ.e. að vinnuveitandi getur farið fram á það við
umsækjanda eða starfsmann að hann leggi fram sakavottorð sitt ef slíkt
telst nauðsynlegt á grundvelli almenns hagsmunamats.
4.
Gert er ráð fyrir því í 2. gr. frumvarpsins að samkvæmt a-lið 5. gr.
lögreglulaga verði í reglugerð mælt fyrir um heimild til að krefjast
fíkniefnaprófs. Af því tilefni minnir Persónuvernd á að rétt eins og
þegar um ræðir kröfu um upplýsingar í málaskrá lögreglu, sem og aðrar
persónuupplýsingar, á að ekki að krefjast fíkniefnaprófs nema það sé
nauðsynlegt í ljósi atvika hverju sinni og fyrir því séu sérstakar
ástæður. Því leggur Persónuvernd til að fyrir aftan orðið
„fíkniefnaprófs“ í umræddu ákvæði verði bætt orðunum „þegar sérstök
ástæða er til“.
Að öðru leyti gerir Persónuvernd ekki athugasemdir við einstök ákvæði
frumvarpsins. Hins vegar minnir stofunin á mikilvægi þess að
stjórnsýsluframkvæmd á grundvelli þess samrýmist meðalhófskröfum.
- - - - - - - - - - -
Umsögn um drög að reglugerð um bakgrunnsathuganir
1.
Persónuvernd vísar til erindis innanríkisráðuneytisins frá 31. október
2012 þar sem óskað er umsagnar stofnunarinnar um drög að reglugerð um
bakgrunnsathuganir, öryggisvottanir og öryggisviðurkenningar lögreglu. Í
reglugerðardrögunum er að finna ákvæði um hvernig staðið skuli að
athugun lögreglu á bakgrunni einstaklinga sem fara skal fram á
grundvelli laga eða alþjóðlegra samninga sem Ísland hefur fullgilt, sbr.
2. gr. draganna, t.d. þegar um ræðir þá sem hafa með höndum starf sem
varðar almannaöryggi.
Af ákvæðum reglugerðardraganna er ljóst að gagnasöfnun um einstaklinga í
þágu bakgrunnsathugunar gæti orðið mjög víðtæk og nærgöngul. Má þar til
dæmis nefna að samkvæmt d-, e- og g-liðum 10. gr. draganna má lögregla
vinna með upplýsingar um misnotkun á áfengi og öðrum vímugjöfum, sem og
um lyfjanotkun einstaklinga og um skuldastöðu og vanskil. Þá er í 1.
mgr. 8. gr. að finna ákvæði um heimild til notkunar upplýsinga úr fjölda
skráa, þ. á m. málaskrá lögreglu. Einnig er þar fjallað um heimild til
notkunar upplýsinga úr SIS-upplýsingakerfinu, þ.e. því upplýsingakerfi
sem mælt er fyrir um í Schengen-samningnum. Auk þess má nefna að í 13.
gr. reglugerðardraganna er mælt fyrir um heimild til að krefjast
fíkniefnaprófs að tilteknum skilyrðum fullnægðum.
Samkvæmt 6. gr. á upplýsingasöfnun vegna bakgrunnsathugana að byggjast á skriflegu samþykki viðkomandi einstaklinga. Af f-lið 10. gr. reglugerðardraganna verður
ráðið að það geti verið metið einstaklingi í óhag að hann neiti að gefa persónuupplýsingar um sig eða heimili ekki lögreglu að gera þær athuganir sem teljist mikilvægar og nauðsynlegar við bakgrunnsathugun.
Í 36. gr. reglugerðardraganna er vísað til 3. mgr. 5. gr. og 3. mgr. 34.
gr., sbr. 40. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, sem lagaheimildar fyrir
setningu reglugerðar. Samkvæmt 3. mgr. 34. gr. laganna má ráðherra setja
reglugerðarákvæði um gjöld til að standa undir kostnaði við vinnu
lögreglu vegna bakgrunnsathugunar á einstaklingi og útgáfu
öryggisvottunar. Að öðru leyti er ekki minnst á bakgrunnsathuganir í
umræddum ákvæðum, né heldur er önnur ákvæði um slíkar athuganir að finna
í lögreglulögum. Þá er ekki í öðrum lögum að finna heimild til
setningar reglugerðar um bakgrunnsathuganir almennt heldur aðeins um
slíkar athuganir á tilteknum sviðum, sbr. t.d. 70. gr. c og n-lið 1.
mgr. 71. gr. d í lögum nr. 60/1998 um loftferðir. Af þeirri ástæðu telur
Persónuvernd vafa leika á um lagastoð fyrir þeirri reglugerð sem nú er
ráðgert að setja.
2.
Persónuvernd barst hinn 15. október 2012 umsagnarbeiðni frá Alþingi um
frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum nr. 90/1996 (þskj. 174,
173. mál á 141. löggjafarþingi), en í því frumvarpi er gerð tillaga um
að aukið verði við lögin efnislegum ákvæðum um bakgrunnsathuganir sem
fram fari samkvæmt öðrum lögum. Ætla má að umrædd reglugerðardrög séu
lögð fram í tengslum við þetta frumvarp og að ráðuneytið líti svo á að
næg lagastoð verði fyrir reglugerðinni að því gefnu að frumvarpið verði
samþykkt.
Hinn 27. nóvember 2012 veitti Persónuvernd Alþingi umsögn um þetta
frumvarp þar sem m.a. er gagnrýnd sú ráðagerð að víðtækar heimildir til
gagnaöflunar verði látnar gilda um bakgrunnsathuganir almennt óháð
aðstæðum hverju sinni, s.s. því starfi sem einstaklingur gegni. Af því
leiði að ávallt þegar í lögum sé mælt fyrir um bakgrunnsathuganir
lögreglu verði heimilt að skoða upplýsingar úr málaskrá hennar, en
upplýsingar, sem þar séu skráðar, feli ekki í sér opinbera staðfestingu á
að menn hafi framið tiltekin brot. Nánar segir í umsögn Persónuverndar
til Alþingis:
„Með umræddu ákvæði 1. gr. frumvarpsins gæfi löggjafinn sér hins vegar
fyrirfram að í hvert sinn sem ástæða væri til setningar ákvæða um
bakgrunnsathugun væri jafnframt tilefni til notkunar
málaskrárupplýsinga. Persónuvernd telur ekki unnt að taka slíka afstöðu
og leggur þess í stað til að metið sé í hvert sinn, sem ákvæði eru sett í
lög um bakgrunnsathugun, hvort þörf sé á málaskrárupplýsingum við
framkvæmd athugunarinnar.“
Persónuvernd áréttar framangreinda athugasemd í tengslum við umrædd
reglugerðardrög, en í þeim er ekki að finna neina greiningu á því hvaða
störf megi telja þess eðlis að bakgrunnsathugun kalli t.d. á öflun
upplýsinga úr málaskrá lögreglu. Skortur á slíkri sérgreiningu getur
orðið til þess að fjölmennar starfsstéttir, t.d. þær sem starfa við
samgöngur, þurfi að sæta mjög nærgöngulu eftirliti lögreglu langt umfram
það sem almennt hefur verið talið málefnalegt eða samrýmast
meðalhófssjónarmiðum. Í því sambandi er minnt á ákvæði 71. gr.
stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
Einnig gerir Persónuvernd athugasemd við að rætt sé um samþykki í
reglugerðardrögunum. Svo að um sé að ræða samþykki einstaklings þarf
hann að hafa gefið yfirlýsingu þar að lútandi af fúsum og frjálsum
vilja. Hins vegar er ljóst að neitun um svokallað samþykki samkvæmt
umræddum reglugerðardrögum gæti til dæmis haft í för með sér
starfsmissi. Það má m.a. sjá af fyrrnefndum ákvæðum um það þegar
einstaklingur neitar að gefa upp persónuupplýsingar eða heimila
tilteknar athuganir. Því telur Persónuvernd að hér sé ekki um
raunverulegt samþykki að ræða.
Hvað varðar öflun upplýsinga úr SIS-upplýsingakerfinu minnir
Persónuvernd á að takmarkanir eru við því í hvaða tilgangi nota megi
slíkar upplýsingar, sbr. 9. gr. laga nr. 16/2000 um
Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi, sbr. 1.–3. og 5. mgr. 102. gr.
Schengen-samningsins. Grunnreglan er sú að aðeins megi nota upplýsingar á
þann veg sem samrýmist tilgangi skráningar. Frá því eru örfáar
undantekningar og ber að túlka þær þröngt eins og fram kemur í
athugasemdum við 9. gr. þess frumvarps sem varð að lögum nr. 16/2000.
Persónuvernd telur miklum vafa háð að ákvæði 1. mgr. 8. gr.
reglugerðardraganna um heimild til notkunar upplýsinga úr kerfinu
samrýmist lögum og þjóðréttarlegum skuldbindingum.
Eins og fyrr greinir er í 2. gr. reglugerðardraganna að finna ákvæði
þess efnis að bakgrunnsathuganir geti farið fram á grundvelli
lagaheimildar eða alþjóðlegra samninga sem Ísland hefur fullgilt. Af því
tilefni minnir Persónuvernd á að alþjóðlegir samningar geta einir og
sér ekki talist fela í sér heimild til íhlutunar í réttinn til friðhelgi
einkalífs heldur þarf sérstaka lagaheimild til sem brýna nauðsyn ber
til vegna réttinda annarra, sbr. 3. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar.
3.
Þegar litið er til þeirra athugasemda, sem raktar eru í 2. kafla hér að
framan, telur Persónuvernd varhugavert að samþykkja umrædd
reglugerðardrög óbreytt. Þá minnir stofnunin á að lagastoð skortir til
setningar slíkrar reglugerðar sem hér um ræðir eins og á stendur. Auk
þess áréttar stofnunin sérstaklega það sem fyrr greinir um þá
fordæmalausu íhlutun í einkalífsrétt manna í stórum starfsstéttum sem
samþykkt reglugerðardraganna getur haft í för með sér. Mælist því
stofnunin gegn setningu reglugerðar á grundvelli draganna.