Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögreglulögum
Persónuvernd vísar til tölvubréfs allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis frá 15. október 2012 þar sem óskað er umsagnar stofnunarinnar um frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum nr. 90/1996 (þskj. 174, 173. mál á 141. löggjafarþingi). Rætt var um frumvarpið á fundi stjórnar Persónuverndar í dag og ákveðið að gera eftirfarandi athugasemdir:
Í 2. gr. frumvarpsins er m.a. lagt til að við 2. mgr. 5. gr. laganna bætist nýr stafliður þar sem mælt verði fyrir um heimild ríkislögreglustjóra til öflunar upplýsinga úr málaskrá lögreglu við framkvæmd lögboðinna bakgrunnsathugana. Af þessu tilefni vekur Persónuvernd athygli á að upplýsingar í málaskrá lögreglu fela ekki í sér opinbera staðfestingu á því að menn hafi framið tiltekin brot. Þegar unnið er með persónuupplýsingar gildir sú meginregla að þær skuli vera áreiðanlegar, sbr. d-lið 1. mgr. 6. gr. persónuverndartilskipunarinnar nr. 95/46/EB, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þegar litið er til þessa og viðkvæms eðlis upplýsinga í málaskrá lögreglu ber að gjalda varhug við því að þær séu notaðar til annars en hefðbundinna lögreglustarfa. Þegar litið er til grunnreglu 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs verður notkun þeirra í tengslum við umræddar bakgrunnsathuganir aðeins talin réttlætanleg þegar mjög ríkar ástæður krefjast slíks.
Með umræddu ákvæði 2. gr. frumvarpsins gæfi löggjafinn sér hins vegar fyrirfram að í hvert sinn sem ástæða væri til setningar ákvæða um bakgrunnsathugun væri jafnframt tilefni til notkunar málaskrárupplýsinga. Persónuvernd telur ekki unnt að taka slíka afstöðu og leggur þess í stað til að metið sé í hvert sinn, sem ákvæði eru sett í lög um bakgrunnsathugun, hvort þörf sé á málaskrárupplýsingum við framkvæmd athugunarinnar. Í samræmi við það leggur Persónuvernd til að orðin „úr skrám lögreglu og“ í tillögu að nýjum staflið í 2. mgr. 5. gr. lögreglulaga falli brott.
Einnig er fjallað um öflun málaskrárupplýsinga í tillögu c-liðar 10. gr. frumvarpsins að nýjum málslið sem bætt yrði við 5. mgr. 38. gr. lögreglulaga. Með hinum nýja málslið yrði veitt heimild til öflunar upplýsinga úr málaskrá um þá sem sækja um skólavist í Lögregluskólanum. Í ljósi þeirra sjónarmiða sem rakin hafa verið varðandi lögreglumenn eru ekki gerðar athugasemdir við það. Hins vegar telur Persónuvernd að gæta þurfi meðalhófs og andmælaréttar þegar umræddir námsumsækjendur eiga í hlut með sama hætti og þegar um ræðir lögreglumenn og umsækjendur um störf þeirra. Persónuvernd leggur því til að við umrædda tillögu að nýjum málslið 5. mgr. 38. gr. sé bætt sömu viðbót og stofnunin leggur til varðandi tillögu að 4. mgr. 28. gr.
Í 8. gr. frumvarpsins er lögð til ný 28. gr. a. Verði það ákvæði lögfest verður heimilt að afla upplýsinga úr málaskrá lögreglu um alla þá sem gegna þar störfum eða sækja um starf. Í þessu sambandi vekur Persónuvernd athygli á því að störf hjá lögreglu geta verið af ýmsum toga og sum þess eðlis að ekki sé þörf á slíkri upplýsingaöflun sem hér um ræðir, s.s. þegar um ræðir störf í mötuneyti, við ræstingar eða ýmsa stoðþjónustu. Ákvæðið tekur hins vegar ekki tillit til þessa og leggur Persónuvernd til að það falli brott eða verði að öðrum kosti breytt verulega þannig að það taki aðeins til þeirra tilteknu starfsmanna sem sérstök þörf verður talin á að upplýsinga sé aflað um úr málaskrá þó svo að þeir fari ekki með lögregluvald. Við brottfall ákvæðisins væri ekki lengur fjallað um öflun upplýsinga úr sakaskrá vegna umræddra starfa, en vakin er athygli á að um slíka upplýsingaöflun giltu þá sömu sjónarmið og alla jafna, þ.e. að vinnuveitandi getur farið fram á það við umsækjanda eða starfsmann að hann leggi fram sakavottorð sitt ef slíkt telst nauðsynlegt á grundvelli almenns hagsmunamats.
- - - - - - - - - - -
Að öðru leyti gerir Persónuvernd ekki athugasemdir við einstök ákvæði frumvarpsins. Hins vegar minnir stofunin á mikilvægi þess að stjórnsýsluframkvæmd á grundvelli þess samrýmist meðalhófskröfum.