Umsögn um breytingartillögu við frumvarp um breytingu á lögum um landlækni og lýðheilsu
Umsögn um breytingartillögu velferðarnefndar Alþingis við frumvarp
til laga um breytingu á lögum nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu,
með síðari breytingum (eftirlit með heilbrigðisþjónustu).
Athygli Persónuvernd hefur verið vakin á breytingartillögu
velferðarnefndar við frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 41/2007,
um landlækni og lýðheilsu, með síðari breytingum (eftirlit með
heilbrigðisþjónustu) (þskj. 1353, 679. mál á 140. löggjafarþingi
2011-2012).
Af nefndaráliti velferðarnefndar (þskj. 1352) mætti ætla að Björg
Thorarensen, formaður stjórnar Persónuverndar og Sigrún Jóhannesdóttir,
forstjóri Persónuverndar, hafi mætt á fund nefndarinnar til að ræða
framangreinda breytingartillögu. Hið rétta er að formaður stjórnar og
forstjóri mættu á fund nefndarinnar til að ræða þá nýútkomið
leiðbeinandi svar stofnunarinnar til Læknafélags Íslands um afhendingu
persónugreinanlegra upplýsinga um allar konur með brjóstafyllingar og að
ekki var rætt um breytingartillöguna á fundinum.
Persónuvernd hefur ekki fengið umrædda breytingartillögu til umsagnar né
tjáð sig um hana að öðru leyti. Hún vill hins vegar með bréfi þess taka
fram að hún leggst gegn því að tillagan verði að lögum í óbreyttri
mynd. Um það vísast í fyrsta lagi til almennra persónuverndarsjónarmiða,
sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnnar, 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og
ákvæða laga nr. 77/2000.
Í öðru lagi vísar hún til almennra sjónarmiða um mikilvægi skýrrar og
markvissrar stjórnsýslu. Í umræddri breytingartillögu er lagt til að til
verði ný skrá sem landlæknir haldi, s.k. skrá yfir ígrædd lækningatæki.
Á síðasta ári var eftirlit með öryggi lækningatækja hins vegar
sérstaklega fært frá landlækni til Lyfjastofnunar með 17. gr. laga nr.
28/2011 um breytingu á lögum nr. nr. 41/2007, um landlækni, með síðari
breytingum, og um brottfall laga nr. 18/2003, um Lýðheilsustöð. Það er
til þess fallið að valda miklum ruglingi í hugum borgaranna og
óskilvirkri framkvæmd í stjórnsýslu ef tvö stjórnvöld, þ.e. landlæknir
og Lyfjastofnun, hafa eftirlit með sömu málum. Þá er efnið óskýrt, m.a.
vegna skorts á skýringum hugtaka. Loks er óljóst hvort eða að hvaða
marki ákvæðum frumvarpins er ætlað að hafa hafa afturvirk áhrif.
Þá er mikilvægt að undirbúningur að lagabreytingum sem lúta m.a. að
takmörkunum á stjórnarskrárvernduðum mannréttindum sé vandaður.
Persónuvernd er tilbúin til að leggja sitt af mörkum í samvinnu um
lagabreytingar á málefnasviði stofnunarinnar.