Umsagnir
Umsögn um tillögu Stjórnlagaráðs
Persónuvernd hefur gefið umsögn um drög Stjórnlagaráðs að breyttum stjórnarskrárákvæðum um notkun upplýsinga. Að mati Persónuverndar þarf að ígrunda vandlega hvort að ákvæði 7. gr. í drögum ráðsins fái örugglega samrýmst tilskipun sem Ísland er bundið af eða sé of fortakslaus því frjáls söfnun persónuupplýsinga sé hvergi heimil í hinum vestræna heimi.
Umsögn um tillögu Stjórnlagaráðs
Persónuvernd hefur borist ósk um umsögn um tillögudrög Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Í þeim er að finna tillögur að ákvæðum fyrir nýja stjórnarskrá hvað varðar skoðana- og tjáningarfrelsi, upplýsingafrelsi og frelsi fjölmiðla.
Stofnunin vill koma eftirfarandi á framfæri. Bæði í núgildandi stjórnarskrá og drögum að tillögum Stjórnlagaþings er að finna ákvæði um friðhelgi einkalífs en þar kemur m.a. fram að friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu skuli tryggð. Ákvæðið kom nýtt inn með 9. gr. laga nr. 97/1995 en í athugasemdum er fylgdu frumvarpi því er varð að þeim lögum kemur fram að hugtakið friðhelgi einkalífs geti náð til vinnslu persónuupplýsinga. Í þessu sambandi vekur Persónuvernd athygli á því að í nýrri mannréttindaskrám, s.s. 8. gr. mannréttindaskrár Evrópusambandsins, hefur sjálft ákvæðið um friðhelgi einkalífs verið gert skýrara að þessu leyti. Þar er tekið fram í textanum sjálfum að friðhelgin taki einnig til vinnslu persónuupplýsinga. Er lagt til að hér verði sambærileg breyting gerð.
Að því er varðar tillögur að ákvæðum um upplýsingafrelsi er minnt á þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands vegna EES samningsins. Samkvæmt honum ber Íslandi m.a. að virða ákvæði tilskipunar 95/46EB. Að mati Persónuverndar þarf að ígrunda vandlega hvort að ákvæði 7. gr. í drögum ráðsins fái örugglega samrýmst tilskipuninni eða séu of fortakslaus því augljóst er að frjáls söfnun persónuupplýsinga er hvergi heimil í hinum vestræna heimi.